Handritin heim

AFHENDING HANDRITANNA 1971 – Af öllum þeim viðburðum sem skátarnir hafa staðið fyrir er þessi heiðurvörður örugglega sá allra allra glæsilegasti. Þetta er heiðursvörðurinn sem var á bryggjunni þegar Vædderen með fyrstu handritin um borð lagðist að bryggjunni á sumardaginn fyrsta 1971, 22. apríl, fyrir 50 árum síðan. Dagblöðin telja að um 20 þúsund manns hafi verið viðstaddir. Atli Smári Ingvarsson stjórnaði heiðursverðinum af miklum skörungsskap, fékk til sín skáta á dróttskátaaldri, þjálfaði vandlega og leiddi síðan sitt fólk í gegnum athöfnina þannig að allt var fullkomið. Stjórn SSR hafði með góðum fyrirvara óskað eftir því við Atla að hann stjórnaði heiðursverðinum, og hann ásamt Örlygi Richter og reynsluboltanum Óskari Péturssyni ræddu við hina opinberu undirbúningsnefnd og lögðu fyrir hana sína áætlun sem var að lokum samþykkt. Hér fyrir aftan er þessum viðburði gerð nokkur skil í myndum. Myndirnar eru að mestu í tímaröð en þó er röð breytt aðeins til að auðveldara sé að bera kennsl á þá skáta sem skipuðu heiðursvörðinn. Sá sem þetta skrifar þekkir einungis sárafáa en vonast til að lesendur taki þátt í því að nafngreina skátana. Allt er þetta til gamans gert og til að minnast þessarar athafnar fyrir 50 árum síðan sem var skátunum til mikils sóma. – Pennahaldari var á bryggjunni þennan dag í sínum skátabúningi og með sína fínu Topcon SLR-myndavél, tvær filmur og tvær linsur. Myndatakan tókst ágætlega og hér sjást myndirnar í fyrsta sinn.—