Flokkakeppni 1962

Tjaldbúðalíkan frá 1962 verður til sýnis á Skátasafninu.

Árið 1962 var landsmót skáta á Þingvöllum. Veturinn á undan hélt BÍS flokkakeppni um besta skátaflokk landsins þar sem skátaflokkum um allt land var boðið að taka þátt. BÍS sendi út verkefni mánaðarlega og flokkar unnu skv þessum verkefnum og skiluðu skýrslu til baka. Þessi flokkakeppni var mjög metnaðarfull og vel framkvæmd. Eitt verkefnið var að byggja líkan af væntanlegri tjaldbúð flokksins á landsmótinu. Eitt slíkt líkan hefur varðveist ágætlega, líkan skátaflokks í Jómsvíkingum í SFR með Hans Sætran sem flokksforinga.

Eins og myndin sýnir þá er þetta líkan gert af mikilli natni, tjöldin eru saumuð saman, það eru stög og hælar. Hliðið er súrrað saman. Fánastöngin er á sínum stað, og varðeldurinn, og göngustígar, byggt á fjöl með leirlagi ofan á til að móta jarðveginn. Þetta tjaldbúðalíkan er listavel gert. Hans Sætran var mikill skáti og þekktur sem ágætur ljósmyndari og tók myndir úr skátastarfi á árunum 1960-75 og, það sem nú skiptir svo miklu máli; filmur hans hafa varðveitst. – Hans er farinn heim.

Í Skátablaðinu í júlí 1962 segir ágætlega frá þessari flokkakeppni.