Skátabelti

Íslenska skátabeltið er stórmerkilegt, sylgjan steypt í málmsmiðju úr messing, slípuð til, og leðurbelti sett við. Þessi íslenska sylgja er ljómandi vel gerð og leysti af hólmi breskar sylgjur sem áður voru algengastar. Þessar beltissylgjur komu á markaðinn hér um 1960. Þessar tilteknu beltissylgjur sem myndirnar eru af koma frá Minjasafni skáta á Úlfljótsvatni, önnur með kvenskátasmáranum og hin með drengjaskátaliljunni. Hver veit þessa sögu? Hver teiknaði, hver gerði mótin, hver gerði beltin? Nýjustu fréttir: Frúin hringdi, fann mótin, þau eru þarna, það má steypa aftur…. Þarf að skoða…

Veitið athygli snilldarhandbragði á miðjustykkjum sylgjunnar. Drengjaskátaliljan er með upphleyptu „Vertu viðbúinn“ á borða, og Kvenskátasmárinn er með laufblöðunum í þrívídd þar sem þau eru hæst til hliðanna og lægst í miðjunni, og æðaförin í laufblöðunum sjást greinilega. Þá er ósagt um snilldarhandbragðið á aðalhluta sylgjunnar með landvættunum og öllu því. Þetta gera einungis snillingar, mótasmiðurinn er etv gull- eða silfursmiður.