Útsjónasamir hjólarar

VíkingaAkademia skáta nr. 1 – Minningarbrot frá Öðlingum í skátaferð á Hellisheiði
Þeir félagar Haukur Konráðsson og Sæmundur Ásgeirsson (Sæmi Ásgeirs), Öðlingar báðir tveir, og Víkingar, hjóluðu að heiman upp á Hellisheiði í skátaskálana þar. Þetta var um 1965. Þá voru tómir malarvegir.

Á bakaleiðinni sprakk að aftan hjá Sæma sem var á DBS hjóli. Þá var stoppað og mosa troðið í dekkið. Svo var hjólað og þá sprakk að framan hjá Hauki. Nú var úr vöndu að ráða því engar voru bæturnar. Hvað var gert? Jú, framhjólið hjá Hauki var tekið undan, og böglaberinn af hjá Sæma sem og frambrettið hjá Hauk, og svo var gaffallinn hjá Hauki skrúfaður fastur á afturöxulinn hjá Sæma, og þá var hægt að hjóla áfram á „þrí“hjóli.

Þetta reyndist heldur vakurt.

Þá sáu þeir tréplanka, og gaddavír þar skammt frá, og plankinn var tekinn og settur fastur á milli hjólanna með gaddavírnum og þá var þetta stífara og þá gekk betur að hjóla á þessum mjög svo sérstaka þríhjóla farkosti. Þessi mynd er tekin á leiðarenda, heima hjá Sæma að Fornhaga 11, og það er lint að aftan hjá honum.

Sjá má böglaberann og brettið og framdekkið á böglaberanum aftan á hjá Hauki.