Ráðstefna norrænu skátasafnanna í Stokkhólmi 2023
Næsta ráðstefna norrænu skátasafnanna fer fram í Stokkhólmi dagana 8.-10. september næstkomandi.
Fræðasetur skáta, umsjónaraðili Skátasafnsins á Úlfljótsvatni, hvetur allt áhugafólk um þessi málefni að taka þátt og vera með í Stokkhólmi í haust.
Gaman væri að sjá sem flesta íslenska skáta fylgja eftir vel heppnaðri ráðstefnu á okkar vegum sl. haust.
Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst. Þeir sem hafa áhuga á að vera í samfloti, mögulega koma fyrr og/eða dvelja lengur til að njóta Stokkhólms er bent á að hafa samband í gegnum Facebook-síðu Skátasafnsins og/eða hafa samband með tölvupósti á netfangið skatasafn@skatasafn.is. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að hver þátttakandi annist um sitt ferðaskipulag sjálfur.
Til fróðleiks má geta þess að þessa dagana er mögulegt að næla sér í flugferð fram og til baka fyrir rétt rúmar kr. 20.000 – sé farið á miðvikudagsmorgni og heim á mánudegi. Þannig gefst tími til að njóta borgarinnar og taka jafnframt þátt í ráðstefnunni.
Endilega kynnið ykkur neðangreint umsóknareyðublað en þar er m.a. að finna upplýsingar um kostnað, dagskrá, markmið ráðstefnunnar og fleira áhugavert:
Ferðatilhögun – til upplýsingar
Þegar þetta er skrifað, Uppstigningardag 18. maí, hafa sex skátar þegar bókað sér far með Play fram og til baka. Brottför þessara kátu skáta er á miðvikudagsmorgni þann 6. september og heimför er um hádegisbil mánudaginn 11. september. Hugmyndin er að nýta sér afsláttarkjör ráðstefnuhótelsins SCANDIC STAR SOLLENTUNA sem býður sérstök skátakjör fyrir ráðstefnugesti sem vilja koma fyrr og/eða dvelja lengur. Tíminn verður nýttur til að skoða þessa fallegu borg og nágrenni hennar undir styrkri leiðsögn Hauks Haraldssonar fararstjóra sem er vel kunnugur staðháttum.